149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:28]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og verð að segja að ég er afar þakklátur fyrir þá fjölmörgu þingmenn sem lýst hafa því hér í ræðustól að þeir hafi haft efasemdir. Ég er virkilega þakklátur fyrir þá þingmenn sem hafa lýst því, hvort sem má vera í viðtölum við vefmiðla eða ljósvakamiðla eða á samskiptamiðlum, að þeir hafi haft efasemdir um innleiðingu orkupakka þrjú af hvaða ástæðum sem það mætti hafa verið. Þær hafa verið tíundaðar, hvort sem það var umhverfislega eða lagalega séð, eða hvort þær áttu einhverjar aðrar rætur. Það segir mér einfaldlega að alla vega þeir þingmenn hafi gaumgæft málið og hafi ekki verið fullvissaðir um að hægt væri að fara í þessa vegferð nema að gaumgæfa málið alla vega betur.

Það er hópur þingmanna sem komið hefur hér og sagt að þeir hafi verið efasemdarmenn en að þeir hafi hins vegar verið sannfærðir með þeim fyrirvörum sem lagðir hafa verið til grundvallar í stjórnarsamstarfinu um að leiðin væri fær. En kannski þurfa menn að vera lögfróðir. Kannski þarf kynningin að vera betri á þeim fyrirvörum sem lagðir voru fyrir. Vegna þess að ég er ekkert hissa á því að mönnum geti virst í fyrstu að þetta geti gengið upp. En ef menn kafa vel ofan í það sem verið er að ræða kemur í ljós, herra forseti, að svo er ekki. Getur hv. þingmaður lýst áliti sínu á þessu?