149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég tek undir það með hv. þingmanni að hér hafa mjög mætir þingmenn lýst efasemdum sínum. Þeir hafa reyndar ekki lýst hvernig sinni þeirra breyttist hvað þetta varðaði og hvað varð til þess að þeir tóku sinnaskiptum. En heyrt hef ég bæði í mönnum eins og hv. þm. Páli Magnússyni og hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni, sem lýstu miklum efasemdum um þetta þingmál en hafa nú snúist á sveif með flokknum sínum. Það er sem sagt búið að berja þá til að ganga í takt, eins og maður segir. Og mikil ósköp, það er náttúrlega hverjum manni frjálst að skipta um skoðun. Það er hygginna manna háttur, var sagt einu sinni.

En ég verð samt að viðurkenna að núna eftir að við erum búin að vera hér og brjóta þetta mál til mergjar á þessum dögum og dægrum sem liðin eru, segi ég fyrir sjálfan mig: Hefði ég einhvern tíma verið hallur undir þetta mál þá hefði það breyst núna við þær umræður sem hér hafa verið, vegna þess að komið hefur í ljós að þetta mál er ekki allt sem sýnist.

Komið hefur í ljós æ betur, og meira að segja inn á þennan dag, að málið er svo illa undirbúið, alveg skelfilega illa undirbúið. Og svo kemur utanríkisráðherra hér og hann veit varla nokkurn skapaðan hlut um þetta mál og/eða vill ekki svara til um það. Það er ekki traustvekjandi, herra forseti. Þess vegna er ég meira hissa á því að grandvarir hv. þingmenn hafi skipt um skoðun og gengið til liðs félaga sína og vilji styðja þetta mál.