149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það er nefnilega mergurinn málsins. Það er ekki af engu sem við höfum staðið hér og átt þessar djúpu, fínu, góðu umræður. Ef þessar umræður væru svona ómarkvissar eða einskis verðar þá trúi ég því ekki að allt það góða fólk sem fylgst hefur með þeim utan húss, miklu fleiri en þingmenn í húsi, myndi sitja við og fylgjast með alla nóttina eða fylla hér palla ef umræðurnar væru svona drepleiðinlegar og vitlausar og heimskulegar. Ég man heldur ekki eftir því á mínum stutta tíma hér á Alþingi að þingpallar hafa verið setnir nánast alla nóttina. En það hefur gerst núna.

Mikilvægi umræðunnar kristallast kannski í því þegar menn eins og formaður VR, Ragnar Ingólfsson og Vilhjálmur Birgisson á Akranesi, senda baráttukveðjur og segja við okkur: Ekki hætta. Haldið áfram að berjast.

ASÍ var á móti þessu, eins og kom fram í 70% þeirra umsagna sem komu til utanríkismálanefndar og atvinnumálanefndar. 62% þjóðarinnar eru á móti þessu máli samkvæmt könnun. Það er þetta fólk sem kallar á okkur og verður þess valdandi að við höldum áfram þessari baráttu. Þetta er ekki eitthvert einkaflipp okkar sem hér erum í salnum hverju sinni, eða einhver aðferð til að mikla Miðflokkinn, þótt góður sé, heldur er þetta bara vegna þess að það er ákall um að farið sé gaumgæfilega yfir þetta mál og að ekki séu teknar ákvarðanir sem ekki er hægt að taka til baka. Þess vegna þarf að fresta þessu máli.