149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:43]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög góða ræðu þar sem hann greinir afar vel og á aðgengilegan hátt, á skiljanlega máta, hvað er hér undir. Það er nefnilega svo að álit Carls Baudenbachers var hreinlega nýtt, ætla ég að leyfa mér að segja hér í ræðustól Alþingis, til þess að flýta málinu með því að undirstrika ákveðna hluti í áliti hans sem voru pólitísks eðlis og vörðuðu mögulega aðkomu Evrópusambandsins á hin pólitíska hátt, þ.e. hvernig sambandið gæti brugðist við til að setja þrýsting á mál.

Pólitískur þrýstingur er ekki lagalegur þrýstingur. Pólitískur þrýstingur getur birst á ýmsan hátt. En það er allt í lagi. Við getum alveg átt við hann. En það sem mestu máli skiptir er lagalegi grundvöllurinn, að hann sé traustur. Ef við hefðum hann ekki undir fótunum er hætt við að það sé launhált á lífsins braut. Og þá verður auðveldara, með pólitískum þrýstingi, að svipta undan okkur löppunum þegar þar að kemur.

Ég tel að hér sé hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kominn að þeim kjarna að ef við tökum skrefin í lagalegri óvissu verður auðvelt að setja hinn pólitíska þrýsting. Og pólitísk klókindi felast í yfirlýsingunum.