149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:46]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Í lok andsvars hv. þingmanns rann upp fyrir mér ljós varðandi nýtt atriði þegar hann nefndi samspilið milli lagalegu ákvæðanna, sem stundum geta verið torskilin, þó að hv. þingmaður greini þau betur en flestir, og svo pólitíska þrýstingsins sem fylgir í kjölfarið á grundvelli þeirra.

Ég held að þetta sé tilefni til ræðu hjá mér og þess vegna vona ég að hv. þingmaður virði það við mig að ég verji ekki svarinu í að greina það. En þetta er algjört lykilatriði.

Það sem ég vildi hins vegar nota tímann í er að að svara varðandi Carl Baudenbacher. Vegna þess að ég þekki hann ágætlega og myndi kalla hann vin minn. Hann er snjall lögfræðingur og snjall lögmaður og er núna sjálfstætt starfandi ráðgjafi. En við erum ekki pólitískir samherjar, ég og Carl Baudenbacher. Ég hefði nú haldið að Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn teldu hann ekki heldur pólitískan samherja sinn, einkum í Evrópumálum.

Það er því ákaflega sérkennilegt að þeir skuli hafa valið einmitt hann til að skrifa greinargerð sem er, eins og hv. þingmaður nefndi, í raun fyrst og fremst pólitísk.

En ég er með nýja kenningu varðandi þessa greinargerð og ætla að rökstyðja hana. Þrátt fyrir að vera ekki á okkar línu pólitískt séð í Evrópumálum er Carl Baudenbacher mikill Íslandsvinur. Hann þekkir Íslendinga. Hann veit hvernig þeir hugsa og hvað virkar á þá. Ég tel allar líkur á að Carl Baudenbacher hafi vísvitandi stillt málinu upp með þeim hætti sem hann gerði, að tala t.d. um að Norðmenn litu á Íslendinga sem fylgifiska sína og að það bæri að sýna Norðmönnum hollustu, ég held að hann hafi alveg vitað hvaða viðbrögð það myndi vekja hjá Íslendingum. Ég held að Carl Baudenbacher hafi gert okkur mikinn greiða, sem hæstv. utanríkisráðherra áttaði sig ekki á þegar hann gerði úttekt sína á skýrslu Baudenbachers.