149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:50]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að samantektin sem ráðherra lét taka saman fyrir sig segi miklu meira um þá niðurstöðu sem ráðherrann vildi fá en greinargerðina í heild sinni.

Það er áhugavert ef við lítum til þess þegar utanríkisráðuneytið kallaði eftir því að Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst sendu viðbótarbréf til að árétta ákveðna hluti. En ég tók líka eftir því hvernig það bréf var orðað. Þar fara þeir ekki á nokkurn hátt gegn því sem þeir höfðu sagt áður. Þeir fara til að mynda ekki gegn þeirri grundvallarstaðhæfingu, sem er að mínu mati augljós, ekki hvað síst eftir að hafa hlýtt á reglugerðaryfirferð hv. þingmanns, að eigi þessi lakari leið, svokallaða, að standast verði fyrirvararnir að vera þess eðlis að innleiðingin taki ekki gildi.

En eins og hv. þingmaður hefur gert svo einstaklega vel grein fyrir í ræðum, er það ekki það sem er um að ræða hér. Verið er að innleiða. Svo eru tíndir til einhverjir svokallaðir fyrirvarar sem leit hófst að hér fyrir nokkrum nóttum og dögum eftir að eftir hv. þm. Ólafur Ísleifsson spurði hv. þm. Birgi Ármannsson hvar fyrirvarana væri að finna. Þá fóru menn að leita. Enn stendur leitin yfir, og nú hefur þingmaður Miðflokksins, Karl Gauti Hjaltason, tekið við keflinu og hefur verið vakinn og sofinn að leita þessara fyrirvara. En þeir hafa ekki fundist enn.

En nóttin er ung.