149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:55]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áhyggjur af þessu og ég tel að þetta sé rétt mat. Þar leiðir einfaldlega eitt af öðru. Ef menn líta svo á það að biðja formlega um það, sem sagt er að verið sé að gera nú þegar, muni valda slíkri mótspyrnu, slíkum viðbrögðum, að það setji EES-samninginn í hættu, getur maður varla trúað því sjálfur að manns eigin aðferð feli í sér einhver raunveruleg áhrif. Annars væri það svo augljóslega einfalt mál, að senda málið til sameiginlegu EES-nefndarinnar og fá það afgreitt þar.

Hvers vegna? Hvers vegna í ósköpunum myndu menn gera þetta með þessum sérkennilega hætti — fordæmalausa hætti, vel að merkja — og halda því fram að þetta séu fyrirvarar og þeir haldi? Ef við förum með þessa fyrirvara inn í sameiginlegu EES-nefndina geti allt orðið vitlaust og við getum bara sett samninginn í uppnám? Það heldur engu vatni.

En ég hef hins vegar áhyggjur af fleiru í þessu samhengi. Ég hef áhyggjur af því að ef menn nálgast hlutina svona séu þeir á vissan hátt að skemma 102. gr. og þar með að skemma EES-samninginn; með því að stjórnvöld haldi því fram að það sé hættulegt að nota 102. gr. og það að nýta þetta ákvæði um sáttameðferð geti reitt menn svo til reiði að samningurinn springi — með slíkum málflutningi er verið að veikja þetta ákvæði og gera það sífellt erfiðara að nýta það í framtíðinni.

Við munum alveg örugglega þurfa að nýta þetta ákvæði oftar. Þá er ekki gott að viðsemjendur okkar geti vísað í það að íslensk stjórnvöld hafi jú sagt að nýting þessa ákvæðis væri það sama og setja EES-samninginn í uppnám.