149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:59]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það styrkir einmitt ákvæðið að nota það. Þau rök að við getum ekki eða eigum ekki að nota ákvæðið vegna þess að það hafi ekki verið notað í 25 ár — hvað segja þau okkur um hvers væri að vænta ef eftir fimm ár kæmi upp stórt álitamál? Þá yrði sagt: Við getum ekki notað ákvæðið vegna þess að það hefur ekki verið notað í 30 ár; enn þá sterkari rök samkvæmt þessu mati.

Við þurfum að nota þetta ákvæði núna, bæði vegna eðlis málsins og til þess að virkja ákvæðið, halda því í formi, láta menn sjá að það sé til staðar og sé virt, það sé hægt að nýta það. Það myndi styrkja stöðu okkar til mikilla muna varðandi alls konar framtíðarmál sem munu koma til okkar í gegnum EES-samninginn.

En það að segja: Við Íslendingar þorum ekki að nota ákvæði sem samningurinn tryggir okkur um sáttameðferð og viðunandi niðurstöðu fyrir alla, eru skýr skilaboð til Evrópusambandsins um að við munum lúffa fyrir öllu sem þaðan kemur.

Og í ljósi þess hvernig Evrópusambandið er að þróast og færa sig upp á skaftið, eins og m.a. hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst svo vel, bæði í ræðu hér í þingi og í viðtali, þurfum við á því að halda að virkja þetta ákvæði og sýna að það sé virkt og sýna að Íslendingar séu þátttakendur í EES-samningnum á jafnræðisgrundvelli. Við séum ekki með aukaaðild, séum ekki fylgifiskar sem þurfi að taka því sem að þeim er rétt.