149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:11]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu og svarið er: Alveg tvímælalaust munu þessir fyrirvarar sem við höfum verið að skoða, hver þeirra sem réttastur kann að vera, falla eins og spilaborg ef kemur til árekstra milli Evróputilskipunar eða -reglugerðar þriðja orkupakkans eftir innleiðingu. Það er ekki búið að innleiða hann enn þá. En eftir innleiðingu kemur upp eitthvert tilvik hér innan lands og menn bera fyrir sig þennan lagalega fyrirvara, hvar sem hann er að finna. Reglugerð, sem útgefin er af Stjórnarráðinu eða einhverjar yfirlýsingar manna úti í Evrópu á einhverjum fundum, EFTA-ríkjanna o.s.frv., það er alveg sama hvað nefnt er, þetta myndi falla eins og spilaborg ef til árekstrar kæmi við ákvæðin í orkutilskipun Evrópusambandsins. Algjörlega.

Ég myndi kalla það, ef ég má, herra forseti, stjórnskipulega svaðilför, að innleiða þetta með þessum hætti og á þessum veika grunni. Að hafa þarna einhvern lagalegan fyrirvara sem er mjög óskýr og heldur lítt gegn þessu öfluga regluverki sem við erum að innleiða og erum skuldbundin til, eftir að þessi ákvörðun hefur verið tekin.

Þess þá heldur að stíga varlega til jarðar og nýta okkur samningsbundinn rétt okkar til að bera þetta aftur undir sameiginlegu EES-nefndina og leita þar eftir undanþágum, sem mér skilst að sé létt verk og löðurmannlegt, miðað við yfirlýsingar þessara ágætu herramanna úti í Evrópu.