149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er einmitt það sem ég hef óttast, hv. þingmaður, og ég þakka kærlega fyrir þetta svar. Það sem hræðir mig einna mest er að við munum sitja uppi með einhvern stóran bakreikning út af þessum lausatökum, sem ég vil kalla svo, og verðum dæmd til skaðabóta o.s.frv. út af þessari innleiðingu. Það er það sem hræðir mig mest.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem er löglærður eins og t.d. Eyjólfur Ármannsson, sá ágæti lögfræðingur í Noregi, sem ég hef vitnað dálítið til í ræðum mínum og mun vitna til í næstu ræðum. Akkúrat það sem hann hefur sagt eru svipuð varnaðarorð og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason viðhefur hér og hefur gert áður í þessari umræðu.

Það sem ég óttast við þetta er að við verðum dæmd fyrir þetta og þurfum að reiða af hendi skaðabætur, ekki smáar.

Þá spyr ég hv. þingmann: Telur hann í fyrsta lagi raunverulega hættu á að það gæti gerst? Getum við gert eitthvað til að koma í veg fyrir það? Ættum við t.d., eins og við vorum nú reyndar að biðja hæstv. ráðherra um í dag, að taka þetta mál aðeins til hliðar og gaumgæfa það, geyma það fram á haust? Vegna þess að í haust er líka ákveðin dagsetning þegar norski stjórnsýsludómstóllinn tekur fyrir mál sem höfðað er einmitt út af innleiðingu þriðja orkupakkans í Noregi.

Við höfum nú goldið varhug við því að við innleiðum tilskipunina að fullu áður en niðurstaða liggur fyrir hjá stjórnlagadómstólnum í Noregi.

En ég spyr aftur: Er raunveruleg hætta á því að við myndum sæta skaðabótum? Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir það?