149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég ætlaði að halda áfram yfirferð minni yfir álit Eyjólfs Ármannssonar lögfræðings. En við fengum í dag heimsókn frá hæstv. utanríkisráðherra, þar sem hann gerði mjög mikið úr því að þeir ágætu lögmenn, Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson, hefðu áréttað með bréfi það sem þeir hefðu áður gefið út fyrir utanríkisráðuneytið. Það vill þannig til að um það leyti sem þeir „áréttuðu“ afstöðu sína með bréfi, og utanríkisráðuneytið fékk þá niðurstöðu sem þeim fannst betri, fór Friðrik Árni Friðriksson Hirst lögfræðingur í viðtal á mbl.is, þann 10. apríl sl., og þar segir:

„Færa má rök fyrir því að meiri lagaleg óvissa felist í þeirri leið sem ríkisstjórnin hyggst fara varðandi innleiðingu á þriðja orkupakka Evrópusambandsins en því ef Alþingi hafnaði því að samþykkja orkupakkann með því að aflétta ekki stjórnskipulegum fyrirvara vegna hans.“

Þarna er Friðrik Árni Friðriksson Hirst á sama máli og Eyjólfur Ármannsson, eins og ég las hér áðan.

Áfram segir:

„Friðrik segist aðspurður ekki telja að lagaleg óvissa ríki í raun um þær afleiðingar sem það hefði ef Alþingi hafnaði því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna þriðja orkupakkans. Hins vegar gæti það haft pólitíska óvissu í för með sér.“

Ég hef sagt hér nokkrum sinnum, held ég, í þessum umræðum, að auðvitað er óþolandi fyrir okkur að hafa lagalega óvissu um þetta mál. Pólitísk óvissa er aftur á móti það sem við stjórnmálamenn eigum við á hverjum degi. Það eigum við að kunna og það eigum við að geta höndlað, ef við þorum það.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Hins vegar var ekki farið fram á undanþágur frá innleiðingu þriðja orkupakkans í sameiginlegu EES-nefndinni af hálfu íslenskra stjórnvalda sem hefði verið hægt að gera á þeim tíma. Alþingi getur þó hafnað því að veita samþykki sitt.“

Við vitum að hugsanlega voru gerð ákveðin mistök á sínum tíma, en engu að síður er í sjálfu sér ekkert mál að leiðrétta þau með því að senda málið aftur til EES-nefndarinnar. Þar væri hægt að fara fram á lögformlega fyrirvara eða undanþágur og þar með færi málið á byrjunarreit.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara þessa leið en í henni felst að sögn Friðriks að þeim álitamálum sem snúa að stjórnarskránni sé í raun slegið á frest.“

Þetta erum við margbúnir að taka fram hér.

„Hann telur að í þeirri leið felist ákveðin málamiðlun. Fyrr eða síðar þurfi hins vegar að taka á ný afstöðu til álitaefna sem varða stjórnarskrána.“

Friðrik Árni varar við að þessi leið gæti haft í för með sér að einstaklingar eða lögaðilar myndu höfða skaðabótamál gegn íslenska ríkinu ef þeir teldu að íslensk landslög tryggðu þeim ekki þann rétt sem þeir ættu að njóta samkvæmt EES-samningnum.

Hann segir líka hér, og nú er ég að verða búinn með tímann, að þessi pólitíska yfirlýsing Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gæti haft einhverja þýðingu á Íslandi en sé ekki lagalega skuldbindandi.

Hann er svo spurður að lokum hvort hann þekki fordæmi fyrir því að fara þá leið sem ríkisstjórnin hyggst fara. Þá segist Friðrik, með leyfi forseta, „ekki þekkja nein dæmi þess í svipinn“. Og þegar hann er spurður hvort staða Íslands verði mögulega veikari eftir að hafa aflétt stjórnskipulegum fyrirvara þegar takast þarf á við álitamál segir hann, með leyfi forseta:

„Vissulega erum við þá hugsanlega að gefa frá okkur þann möguleika að óska eftir undanþágum á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ég held að það liggi í sjálfu sér í hlutarins eðli að ef vilji stæði til þess á síðari tímapunkti þá eru þeir möguleikar afskaplega takmarkaðir þegar búið er að aflétta stjórnskipulega fyrirvaranum og staðfesta þessa ákvörðun.“