149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:32]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög skýrt og skilmerkilegt hjá hv. þingmanni en það vaknaði hjá mér spurning þegar ég heyrði hann tala um annars vegar lagalega óvissu og hins vegar pólitíska óvissu. Þegar þetta tvennt kemur saman verða ákveðin margfeldisáhrif. Það á svo sannarlega við í tilviki Evrópusambandsins og þessara Evrópureglugerða í ljósi þeirra markmiða sem Evrópusambandið vinnur að. Við höfum séð það gerast hvað eftir annað með mál sem menn töldu kannski lagalega vera á einn hátt að þegar pólitíkin og markmið Evrópusambandsins taka svo við er tilhneigingin sú að túlka lögin markmiðunum í vil. Þetta er sérstaklega ríkt í Evrópurétti sem lítur mjög til markmiðanna með lagasetningunni.

Við hljótum að velta því fyrir okkur í þessu samhengi að það sé þeim mun mikilvægara að lögin séu skýr, að þetta sé lagalega skýrt og rétt frá málunum gengið. Því að ella megum við vænta þess að allur lagalegur vafi verði túlkaður Evrópusambandinu og markmiðum þess eins og þeim er lýst, í þessu tilviki í þriðja orkupakkanum, í vil.

Við höfum jafnvel séð að þar sem við Íslendingar töldum að engan lagalegan vafa væri að finna hafa markmiðin orðið yfirsterkari. Við hljótum því að þurfa að huga að raunheimum, hvernig hlutirnir gerast í raunheimum Evrópusambandsins, þegar við tökum afstöðu til þess hvernig við göngum frá þessu máli. Getur hv. þingmaður fallist á þetta hjá mér?