149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:34]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Í byrjun vegferðar, þegar við vorum að byrja þessa umræðu, horfði ég einmitt á þessa tvo kosti. Annars vegar væri pólitísk áhætta en hins vegar væri lagaleg áhætta. Þá sagði ég, líkt og ég sagði í ræðu minni hér áðan: Við stjórnmálamenn eigum að kunna á pólitíska áhættu, við eigum að geta brugðist við henni o.s.frv. Það er verra að eiga við lagalega áhættu, hættu á málsóknum og hvað þetta nú er allt saman. En síðan fór ég að hugsa þetta betur af því að hv. þingmaður sagði að þegar þetta tvennt kæmi saman hefði það margfeldisáhrif. Við erum einmitt í þeirri hættu núna, ef við samþykkjum þetta mál eins og það er lagt upp. Þá er sagt: Ja, það kemur ekki sæstrengur nema stjórnvöld, Alþingi, samþykki það. Þessu erum við núna að henda inn í óráðna framtíð.

Ef við værum óheppin gætum við fengið einhverja Samfylkingarstjórn, Evrópusinnastjórn, sem væri „fyr og flamme“ — afsakið, herra forseti — væri æst í að tengja sæstreng. Það þyrfti ekkert að vera mjög langt undan, nema náttúrlega ef öflugir flokkar eins og Miðflokkurinn kæmust til enn meiri áhrifa en nú er. En þetta er áhættan. Eins og þetta er lagt upp núna felst í þessu áhætta af tvenns konar toga, þessi lagalega sem gæti endað með málsóknum o.s.frv., eins og hér kemur fram, og þessi pólitíska sem felst í því að hér gæti komist á legg einhver kratastjórn.

Pólitíska áhættan sem er talað um ef við myndum vísa þessu máli aftur til sameiginlegu nefndarinnar — ég verð að fara yfir hvaða áhrif það hefði í seinna svari mínu.