149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:41]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar til að bera undir hv. þingmann lítils háttar vafaatriði er málið varðar og er að finna á blaðsíðu 6 í þingsályktunartillögu meiri hluta utanríkismálanefndar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þá varða reglur þriðja orkupakkans og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um aðlögun og upptöku hans í EES-samninginn ekki eignarrétt á orkuauðlindum á Íslandi. Í því sambandi má benda á 125. gr. EES-samningsins þar sem fram kemur að samningurinn hafi engin áhrif á reglur samningsaðila um skipan eignarréttar.“ — Skipan eignarréttar. —

„Þá kemur fram í 2. mgr. 194. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins (SSESB) að ráðstafanir samkvæmt málsgreininni séu með fyrirvara um rétt aðildarríkis til að ákvarða með hvaða skilyrðum orkulindir þess eru nýttar, hvaða orkugjafa það velur og almenna tilhögun orkuafhendingar.“

Það er skýr greinarmunur gerður, annars vegar á eignarrétti og hins vegar nýtingu.

En í tölulið 5.1 í sömu þingsályktunartillögu stendur, varðandi innleiðingu á reglugerð 713 sem fjallar um ACER eða Eftirlitsstofnun Evrópu.

„Stofnuninni er ætlað að aðstoða eftirlitsaðila, sem vísað er til í tilskipunum 2009/72/EB og 2009/73/EB, við beitingu valdheimilda innan Evrópska efnahagssvæðisins og ef þörf krefur að samhæfa aðgerðir eftirlitsaðila, sem á Íslandi er Orkustofnun. Reglugerðin kveður á um lagalega stöðu stofnunarinnar.“

Hér er talað um að það sé m.a. til að fylla í gloppur í löggjöfinni. En hver er löggjöfin um orkustefnu Íslands? Er hún til? Hvernig eru auðlindaákvæðin hjá okkur?