149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Í stuttu máli er orkustefnan ekki til og auðlindaákvæðin eru í skötulíki. Og hvað gerist þá? Þá kristallast það sem fram kom í fyrra andsvari, að við verðum bæði með lagalega óvissu og hellings pólitíska óvissu, sem hverfast saman og margfaldast.

Þarna kemur enn upp það orð sem við höfum notað yfir þann leiðangur sem hér er verið að leggja í: Þetta er óvissuferð. En í raun og veru er þetta meira en óvissuferð. Þegar maður leggur hitt saman við, þ.e. að hafa ekki orkustefnuna og auðlindaákvæðin á hreinu, er þetta farið að líkjast meira rússneskri rúllettu, verð ég að viðurkenna. Það er leikur sem mig fýsir ekki að leika sjálfur.

En þetta er náttúrlega grafalvarlegt. Það er að koma betur og betur í ljós með hverjum deginum og hverri nóttunni sem við erum hér, og það höfum við bent á, hversu illa málið er lagt fram, í hversu í slæmu formi það er lagt fram. Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að það er bráðnauðsynlegt að fresta innleiðingu þessarar reglugerðar, að taka málið aðeins af dagskrá, fara yfir það, gaumgæfa það, fylla upp í holurnar, sem eru sannarlega nú þegar í því.

En auðvitað eigum við að fara að ráðum manna eins og Friðriks Hirsts og Eyjólfs Ármannssonar. Við eigum einfaldlega að hafna orkupakkanum og láta reyna á sáttameðferð sameiginlegu EES-nefndarinnar og fá alvöru lögformlegan fyrirvara af hálfu Evrópusambandsins, innleiða pakkann — og við þurfum engar áhyggjur að hafa, ekki nokkrar. (Forseti hringir.) En ríkisstjórnin hefur ekki döngun í sér til að gera það, því miður.