149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mergurinn málsins, myndi ég segja. Maður er búinn að segja það oft. Það eru mörg samverkandi atriði sem vinna gegn íslenskum hagsmunum og þetta er eitt af þeim.

Eftirlitsstofnunin, sem á heima í Orkustofnun eftir að innleiðingin hefur farið fram, er í raun og veru bara þessi stofnun, ACER, sem lýtur beinu boðvaldi frá Brussel.

Það þýðir ekkert fyrir okkur eða einhvern ráðherra uppi í Arnarhvoli að ætla sér að hafa einhver áhrif þarna, ekki smuga. Þessi stofnun hefur t.d. rétt til þessa að sekta þvílíkar upphæðir, stjórnvaldssektir, að við höfum ekki séð annað eins. Margir svitna þegar þeir sjá stjórnvaldssektir sem Samkeppnisstofnun leggur á samkvæmt núverandi lögum. Þær eru hlægilegar miðað við þær upphæðir sem um er að ræða í þessu sambandi, milljarðar króna.

Þarna verður sem sagt stofnun í landinu, við borgum reksturinn en ráðum engu um hana. Engu. Brussel ræður öllu. Þetta er örugglega votasti draumur Samfylkingar nokkru sinni vegna þess að þarna er komin smá hælspyrna inn í íslenskt orkukerfi beint frá Brussel. Það hlýtur að hljóma eins og jólasálmar í eyrum samfylkingarflokkanna. En fyrir okkur hin er þetta náttúrlega martröð líkast.

En þetta ætla menn að gera. Þetta ætla alþingismenn, með tæplega 90% atkvæða á bak við sig, að samþykkja. Hvers vegna í ósköpunum? Því get ég ekki svarað.