149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er auðvitað bagalegt að fá ekki að heyra nánar af fyrirætlunum forseta hvað varðar tímalengd fundar. Eins og fyrr erum við reiðubúnir að vera hér eins lengi og þarf og vorum það síðast í morgun og erum í sjálfu sér alveg klárir í að endurtaka það. Auðvitað myndi það auðvelda okkur að mörgu leyti að vita þetta.

Hvað hitt varðar barst mér til eyrna að flutningsmaður frumvarpsins, sem við höfum óskað eftir að komi hingað og eigi við okkur orðastað, hafi verið hluti af einhverju skemmtiatriði í svokölluðum skemmtiþætti á RÚV í kvöld meðan hér stóð yfir umræða um þetta mál. Nú veit ég ekki hvort þessi þáttur er sýndur beint, ég horfi aldrei á hann og veit ekkert um hann. Hafi hann verið tekinn upp einhvern tímann áður fellur það um sjálft sig að það hafi (Forseti hringir.) tafið það að viðkomandi gæti verið hér.

En alla vega legg ég á það ríka áherslu að forseti geri nú gangskör að því að eitthvað af því fólki sem við höfum beðið um að verði hér, komi til fundar við okkur.