149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:01]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Það hefur nú margt áhugavert dúkkað upp í þessari umræðu og tekist, með eftirfylgni, að grennslast fyrir um hluti sem stjórnvöld höfðu ekki haft fyrir að kynna okkur.

Hv. þingmaður hefur verið sérstaklega duglegur við að leita í frumheimildir, skoða reglugerðirnar sjálfar og allt sem þeim tengist, og draga af því sínar rökréttu ályktanir.

Þrátt fyrir að margt áhugavert hafi komið í ljós allreglulega í umræðunni heyrðist mér að það sem hv. þingmaður var að kynna okkur hér sé alger bomba. Hv. þingmaður lagði grunn að því sem hann fór yfir með okkur áðan. En í ljósi þess að þetta er mjög viðamikið allt saman, hvernig þessar dagsetningar spila inn í gildistöku, spila inn í innleiðinguna, langar mig að biðja hv. þingmann um að fara aftur yfir þetta með hliðsjón af grunninum sem hann lagði áður, gefa okkur þetta inn með teskeið. Vegna þess að þetta heyrist mér vera atriði sem stjórnvöld geti ekki komist hjá því að svara fyrir.

(Forseti (SJS): Var þetta andsvar frá hv. þingmanni?)

Já.

(Forseti (SJS): Þá hefur bókhaldið eitthvað ruglast hjá forseta en við tökum það þá gilt.)