149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:03]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég skal leggja mig fram um að gera það. Í fyrri ræðu minni í kvöld fór ég yfir þingsályktunartillöguna sjálfa og hvað í henni felst. En þar segir að ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar skuldbindi aðildarríki samkvæmt EES-samningnum að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild samkvæmt 103. gr. til að setja fyrirvara um að ákvörðunin geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.

Við höfum sett þennan stjórnskipulega fyrirvara. — Og nú vantar mig tíma. — Við erum með stjórnskipulegan fyrirvara. Þess vegna á 103. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið við.

En ákvarðanirnar sem svo eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni í þessum tilvikum og kveðið er á um í samningnum skulu vera bindandi fyrir samningsaðila frá og með gildistökudegi nema kveðið sé á um annað í þeim og skulu þeir gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja framkvæmd þeirra og beitingu, þ.e. frá gildistökunni. Gildistakan er 5. maí 2017 og texti reglugerðarinnar telst fullgildur. Það eru engir fyrirvarar við hann. Texti reglugerðarinnar telst fullgildur frá 5. maí.

Það eina sem beðið er eftir er aflétting hins stjórnskipulega fyrirvara. Hann felst í því að Alþingi segi með þingsályktunartillögu við hæstv. utanríkisráðherra: Já, innleiddu orkupakka þrjú. Um leið og það er gert, þegar atkvæðagreiðslu er lokið hér á Alþingi, telst orkupakki þrjú innleiddur í skilningi laga og hefur fullt gildi.