149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:10]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að fara í ræðu minni yfir málefni sem er að mörgu leyti nátengt orkutilskipunum Evrópusambandsins sem við ræðum hér og stjórnvöld hyggjast nú innleiða á Íslandi. Þar á ég við málefni sem lögfest var hér á landi árið á árinu 2008 að tilhlutan sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það birtist í tilskipun Evrópusambandsins nr. 77/2001 og fjallar um að stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa á Evrópska efnahagssvæðinu, en lögin fjalla um upprunaábyrgð á raforku og eru nr. 30/2001. Lögin fólu í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 29/2009 um að hvetja til notkunar orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Lögin eru til þess ætluð að skapa skilyrði fyrir viðskipti með svokallaðar upprunaábyrgðir raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Herra forseti. Upprunaábyrgðir er heiti yfir nokkurs konar skriflegt vottorð um hvaðan orka sem framleidd er á svæðinu, þ.e. Evrópska efnahagssvæðinu, er upprunnin. Raforka getur, eins og kunnugt er, átt uppruna sinn frá mismunandi orkugjöfum, t.d. kolum, kjarnorku, gasi, eða virkjun fallvatna, eins og langalgengast er hér á landi. Í lögunum er upprunaábyrgð á raforku frá samvinnslu skilgreind. Hún er skilgreind sem staðfesting á að raforka sé framleidd með samvinnslu sem hefur góða orkunýtni samkvæmt viðmiðunum sem Orkustofnun setur. Skilgreining á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum samkvæmt þessum lögum er því raforka frá orkuverum sem nota eingöngu endurnýjanlega orkugjafa, auk raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum í verum með blandaðri tækni þar sem notaðir eru óendurnýjanlegir orkugjafar auk endurnýjanlegra orkugjafa.

Samkvæmt lögunum er það Landsnet hf. sem annast útgáfu þessara upprunaábyrgða eða vottorða og hefur eftirlit með því að raforka, sem það staðfestir með útgáfu ábyrgðanna, sé í raun og veru framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum og gerir það samkvæmt beiðni framleiðanda raforkunnar sem framleiðir þessa endurnýjanlegu raforku. Vottorð um upprunaábyrgðina geta bæði verið skrifleg eða rafræn en skulu vera í samræmi við tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins nr. 28/2009, frá 23. apríl 2009. Skal formið á þessum vottorðum vera staðfest af Orkustofnun. Ábyrgðirnar geta einungis verið gefnar út aftur í tímann, ekki fram í tímann, og skal hver einstök ábyrgð hljóða upp á hverja megavattstund sem framleidd er.

Landsnet skal halda trúnað. Það er mikilvægt atriði. Í lögunum segir að Landsnet skuli halda trúnað um allar þær upplýsingar sem varða viðskiptahagsmuni og aðrar þær upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Landsneti er heimilt að krefja umsækjanda um greiðslu vegna útgáfu ábyrgðanna eða vottorðanna og skal halda skrá yfir útgefnar upprunaábyrgðir samkvæmt lögunum og afhenda Orkustofnun árlega upplýsingar um útgefnar upprunaábyrgðir. Í þessum ábyrgðum skal tilgreina upplýsingar um m.a. viðkomandi orkuver, með hvaða orkugjafa raforka er framleidd, hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í heildarframleiðslu raforku í orkuverinu, vinnslugetu orkuversins, ef því er að skipta, upplýsingar um útgefendur ábyrgðarinnar og hvað felist nánar í ábyrgðinni og fleiri nákvæmari upplýsingar.

Þá er Landsnet er skylt að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi, upplýsingar um sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum samkvæmt lögunum en er heimilt að halda eftir viðskiptaupplýsingum sem varða t.d. viðskiptahagsmuni, og öðrum upplýsingum sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, eins og það er orðað, nema viðskiptavinir veiti skriflegt samþykki.

Ég er rétt að byrja á að fara yfir þetta. Þetta er mjög áhugavert efni (Forseti hringir.) um upprunaábyrgðir raforku og tengist verulega (Forseti hringir.) hagsmunum orkunotenda og kaupenda.