149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum kallað mjög eftir því að við okkur sé talað um þetta mál. Við höfum kallað mjög eftir því að þeir sem fylgja þessu máli fram komi hingað og eigi við okkur orðastað, bendi okkur á hvar við höfum farið út af í málinu og reyni hugsanlega að sannfæra okkur, og þau 62% þjóðarinnar sem eru á móti þessum gerningi, um það hvers vegna eigi að taka þessa gerð upp, hvað sé svona frábært sem við komum ekki auga á. Kannski erum við bara svona treggáfuð, það kann að vera, og þá er ágætt að fá greindara fólk sér til aðstoðar og láta benda sér á.

Við Miðflokksfólkið höfum alltaf sagt að ef einhver annar býður upp á lausn sem er betri lausn en við höfum hlustum við að sjálfsögðu, en það bara kemur enginn. Í fyrsta lagi kemur enginn og talar við okkur og í öðru lagi eiga þeir sem maður reynir að pína eitthvað upp úr enga lausn. Þeir eiga ekki neina lausn sem er svo frábær, sem hittir naglann svo gjörsamlega á höfuðið, að maður geti sagt: Jahá, auðvitað, við gerum þetta svona. Það er bara ekki svoleiðis.

Því meira sem maður les og því meira sem maður fer yfir sannfærist maður betur um að stjórnarskráin er — svo að maður sé kurteis — þanin til hins ýtrasta. Ég held að það sé alveg óhætt að segja það. Það er verið að afhenda vald í meira mæli en áður hefur þekkst. Það getur vel verið að við höfum öll rangt fyrir okkur í þessu og ég hef sagt það áður að ég voni að ég hafi rangt fyrir mér í þessu máli en ég bara sé það ekki enn þá, því miður, herra forseti.