149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég myndi segja að þetta væri upplýsandi væri ég eiginlega að smætta þetta töluvert niður vegna þess að þetta eru eiginlega sláandi upplýsingar. Ég veit ekki hvort hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé vissi af því í fyrra, þegar hann var á móti því að pakkinn yrði innleiddur, að hann liti akkúrat svona út. Það væri gaman að fá svar við því einhvern tímann.

Svo að maður segi það enn einu sinni þá hafa sífellt komið fram nýjar upplýsingar allan þann tíma sem við höfum verið að ræða þetta mál. Við höfum alltaf verið að leita að því hvort fram komi upplýsingar sem geri málið betra og fýsilegra. Nei, því miður hafa einungis komið fram upplýsingar um þetta mál hingað til sem gera það enn verra og óálitlegra en það var nokkru sinni.

Satt best að segja er ég eiginlega alveg hættur að botna í því hvernig í lifandis ósköpunum stjórnarliðar geta hugsað sér að láta þessa innleiðingu fara fram eins og hún lítur út núna. Ég bara skil það ekki fyrir mitt litla líf. Ég skil heldur ekki hvers vegna þeir verða ekki við því sem við höfum beðið um oft áður — við erum búin að biðja um að þessi plön verði lögð til hliðar í bili og farið betur yfir málið. Í ljósi þessara síðustu upplýsinga er það ekki einungis æskilegt, það er nauðsynlegt, (Forseti hringir.) algjörlega nauðsynlegt. — Og ég á enn tvær sekúndur eftir af tímanum, herra forseti.