149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:34]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Eftir uppljóstranir hv. þm. Jóns Þórs Þorvaldssonar áðan setur það svo margt annað í samhengi. Maður sér ýmsar fullyrðingar um þetta í nýju ljósi, til að mynda það sem ég nefndi áðan um hinar svokölluðu lofsverðu blekkingar, fullyrðingar fræðimanna um að þessir fyrirvarar væru til heimabrúks, greinargerðir eins og skrif Stefáns Más og Friðriks Árna. Þetta fær allt nýja og skýrari merkingu þegar maður áttar sig á þeirri grundvallarstaðreynd sem hefur verið leidd hér fram að um leið og menn samþykkja þriðja orkupakkann verði hann innleiddur eins og hann leit út 2017, löngu áður en nokkrum datt í hug að tala um þessa svokölluðu fyrirvara.

Þess vegna veltir maður fyrir sér, þegar svona stór staðreynd getur legið í þagnargildi, ekki bara dögum saman heldur vikum saman, því að það er auðvitað búið að ræða þessar hugmyndir um fyrirvara býsna lengi, hversu margt annað eigi eftir að koma upp úr dúrnum. Við höfum reyndar með umræðum hér uppgötvað eitt og annað, en hversu margt annað á eftir að koma upp úr dúrnum varðandi þriðja orkupakkann? Það leiðir hugann að atriði sem hv. þingmaður kom inn á áðan um lagalegu óvissuna og samband þeirrar lagalegu óvissu við pólitíkina. Horfum við fram á það að ómögulegt sé að segja hversu langt menn muni ganga í að nýta þennan þriðja orkupakka þegar menn hafa álpast til — vonandi samt ekki — að samþykkja hann?