149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að vitna, með leyfi forseta, í það sem Eyjólfur Ármannsson lögfræðingur segir um fyrirvarana. Hann segir á bls. 2 í greinargerð sinni, með leyfi forseta:

„Umfjöllun greinargerðar þingsályktunartillögunnar um innleiðingu ESB-gerðanna í landsrétt er rýr en athyglisverð, sbr. eftirfarandi: „Verði þessi tillaga samþykkt verður reglugerð (EB) nr. 713/2009 … innleidd í íslenskan rétt með hefðbundnum hætti en með lagalegum fyrirvara um að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verði ekki reist eða áætluð nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni. Þá verði jafnframt tekið enn frekar og sérstaklega til skoðunar á vettvangi Alþingis hvort innleiðing hennar við þær aðstæður samræmist íslenskri stjórnarskrá.“

Heyrðu, þetta er akkúrat það sem við erum búin að vera að biðja um að gert verði. Enginn svarar og það er ekki að furða að Eyjólfur Ármannsson lögfræðingur kemst að þeirri niðurstöðu að lagafyrirvarinn sem ég las upp áðan feli í sér vafasama lögfræðilega loftfimleika og óvissuferð. Hann segir:

„Gerðin felur í sér framsal á fullveldi og stjórnskipuleg álitaefni og á Alþingi að krefjast nánari upplýsinga um innleiðinguna.“

Þetta las ég upp áðan. Við höfum ekki krafist, við höfum beðið um þetta en fáum engin svör. Þessi ágæti lögfræðingur, sem býr í Noregi og þekkir norsku söguna alveg út og inn, bendir okkur á að gera þetta, nýta rétt okkar til að biðja um upplýsingar. Við gerum það en fáum engin svör. Við fáum bara fúlan ráðherra á svæðið sem (Forseti hringir.) er með snúð við okkur og köpuryrði sem er vont. (Forseti hringir.)

Afsakið, herra forseti, ég fór átta sekúndur fram úr.