149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er nokkuð um liðið síðan ég benti forseta á þá staðreynd að hann og fleiri félagar hans úr Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, Samfylkingunni og öðrum flokkum hefðu í gegnum tíðina oft talið sig þurfa að ræða málin heilmikið. Engu að síður hefði engum fyrri forseta Alþingis dottið í hug að það væri best að leysa úr þeim málum með því að reyna að fela umræðuna, jafnvel að þagga hana niður, með því að láta fundi standa fram til kl. 5, 6, 7, 8, 9 um morguninn. Því hvet ég hæstv. forseta til að huga að starfsfólki Alþingis og tímastjórnun þingsins með það að markmiði, eins og gerst hefur í gegnum tíðina, að umræður fari fram á tiltölulega skikkanlegum tíma og skili þar af leiðandi vonandi fyrr góðri niðurstöðu.