149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:54]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég sat og hlustaði á ræðuna og hugleiddi þá umræðu sem farið hefur fram við fyrri umræðu um þingsályktunartillöguna og síðan á meðan stjórnarliðar og þeir sem eru fylgjandi innleiðingunni, tóku þátt í henni, sem var síðast við upphaf þingfundar í gær, þar sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson var enn í andsvörum. Þá fór ég að hugsa að margsinnis hefur verið kallað eftir fyrirvörum eða dæmum um fyrirvara sem hafi haldið. Og hvort menn þekki þess dæmi.

Ég hef ekki fengið svör við því enn þá að menn þekki til þess að fyrirvarar hafi verið settir á þennan hátt og hafi haldið. Hins vegar er til dæmi um að fyrirvarar hafi verið settir en verið tímabundnir og fallið út eða að fyrirvarar hafi verið settir í landsrétti og ekki haldið; og þá hafi úrskurðarvaldið í Evrópu, EFTA-dómstóllinn, litið svo á að innleiðingin hafi verið röng. Þar af leiðandi hafi aðildarríki sem hafi farið þá leið, verið dæmd til að fara eftir innleiðingunni eins og henni var ætlað að vera, og halda svo samninginn samkvæmt því.

Oft hefur það skapað ríkjum skaðabótaskyldu, eins og til að mynda í hráakjötsmálinu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Þekkir hann dæmi þess í samningum hvernig þessir fyrirvarar líta út ef þeir eru rétt innleiddir, og síðan hvernig þeir líta út eftir að þeir hafa verið innleiddir í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið?