149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:10]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ef ég skildi fyrirspurnina rétt er spurningin: Mun innleiðingin breyta hlutverki Orkustofnunar? Er það rétt skilið? (SDG: Já.)— Já, hún mun vissulega að gera það. Það eru kvaðir í þessari innleiðingu um að íslenska ríkið stofni eftirlitsstofnun — hún heitir ekki Orkustofnun í innleiðingunni heldur eftirlitsstofnun — sem yrði þá Orkustofnun vegna þess að hún er sambærilegur aðili hér innan lands sem ætti að taka við. Við sjáum þess merki að yfirvöld telja sig vera að búa í haginn fyrir þetta með því að breyta umhverfi Orkustofnunar, stíga fyrstu skrefin í þessari innleiðingu, til að mynda með þessu aukna fjármagni sem á að leggja til Orkustofnunar. Orkustofnun verður eftir þessa innleiðingu, og skal verða, það eftirlitsvald. Jafnvel þó að íslensk yfirvöld myndu kannski þráast við að gera það, yrði það raunverulega brot á innleiðingunni. Það yrði krafa af hálfu Evrópusambandsins að við myndum standa við að gera þær breytingar sem þarf að gera á löggjöfinni til að Orkustofnun yrði það sjálfstæða eftirlitsvald sem hún er ekki eins og löggjöfin er í dag. En hana þarf að taka undan framkvæmdarvaldinu þannig að hún sé algerlega sjálfstæð, til þess að hún geti þjónað hlutverki sínu gagnvart Evrópusambandinu og ESA eða samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.