149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:12]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er óneitanlega merkilegt að ríkisstjórnin leggi fram frumvarp um breytingar á eðli Orkustofnunar sem gengur ekki hvað síst út á að gera hana sjálfstæða, eins og það er orðað, en þar er átt við að hún heyri ekki lengur undir lýðræðislegt vald á Íslandi. En hún er hins vegar ekki alveg sjálfstæð, hún mun heyra undir ólýðræðislegt, erlent vald.

En skildi ég hv. þingmann rétt að hvað sem líði þessu frumvarpi um Orkustofnun, og hversu langt sem það eitt og sér kunni að ganga, að komi á daginn, eftir innleiðingu þriðja orkupakkans, að Orkustofnun sé ekki í stakk búin til þess að framkvæma hlutverk sitt í samræmi við þriðja orkupakkann, hlutverk sem nokkurs konar undirstofnun ACER, gæti það kallað á samningsbrotamál og að íslensk stjórnvöld yrðu látin gera frekari breytingar á eðli Orkustofnunar til að tryggja að hún gegndi þessu hlutverki?

Það sem ég á við með þessari spurningu, herra forseti, er að það kann vel að vera að frumvarpið um Orkustofnun, eins og það lítur út núna, dugi til þess að hún fái þetta hlutverk, í samræmi við þriðja orkupakkann. En ef eitthvað reynist vanta upp á í þeim efnum verður ekki látið þar við sitja heldur gerð krafa um að íslensk stjórnvöld geri þær viðbótarbreytingar á lögum sem eru nauðsynlegar til að stofnunin geti gegnt þessu hlutverki.