149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:16]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði að róa á svipuð mið og fyrri fyrirspyrjandi. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir hans ágætu yfirferð yfir reglur um ACER og Eftirlitsstofnun EFTA.

Ég var að velta fyrir mér þessu tveggja stoða kerfi og eftirlitsstofnunum á sviði orkumála eins og þetta er hugsað eftir innleiðingu orkutilskipunar nr. þrjú, sem við erum einmitt að tala um núna. Það eru ákvæði í reglugerðinni, sérstaklega 713, þar sem hefur verið fundið mikið að, þar sem verið er að ræða óeðlileg áhrif ACER á ákvarðanir ESA sem er sú stofnun sem er reist á tveggja stoða kerfinu og er grundvöllurinn undir einmitt Evrópska efnahagssvæðið og veru okkar þar. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann um þennan eftirlitsþátt og Orkustofnun og hlutverk hennar í þessu.

Nú liggur fyrir frumvarp um breytingar á starfsemi Orkustofnunar. Hún er gerð því sem næst óháð ráðherravaldi hér á Íslandi. Miðað við fullyrðingar stjórnarliða í þessu máli að þeir ætli að innleiða þetta en halda samt þessum vafaatriðum fyrir utan innleiðinguna, þ.e. það sem gæti verið hætta á stjórnarskrárvanda. Hver er þá staða Orkustofnunar að þessu leytinu til? (Forseti hringir.) Er hún í lausu lofti?