149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:21]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir hugleiðingar hans. Ég var að spyrja um stöðu Orkustofnunar þegar búið er að innleiða regluverkið. Þar hefur Orkustofnun ákveðið hlutverk sem eftirlitsstofnun á Íslandi eftir þessum tilskipunum Evrópusambandsins. Þegar maður skoðar frumvarpið um Orkustofnun sér maður að að hluta til verður Orkustofnun samt undir íslenskum ráðherra en að hluta til gegnir hann ákveðinni eftirlitsskyldu sinni eftir orkutilskipun Evrópusambandsins, þ.e. ákveðinn þátt, kannski fyrir hádegi, en eftir hádegi þá sinni hann störfum sem heyra undir íslenska ráðherrann.

Spurning mín laut að því hvort þeir væru þá fyrir hádegi í lausu lofti? Ef tilskipunin er ekki innleidd nema með einhverjum fyrirvörum eða einhverjum skilyrðum um frest, að þetta myndi gilda síðar eða eitthvað slíkt, horfa þeir þá í gaupnir sér fyrir hádegi?

Það er ánægjulegt að sjá hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé mættan í þingsal og hlusta á þessar spurningar. (Gripið fram í.) Ég vona að hann læri eitthvað af þessu og dragi einhvern lærdóm og vonandi blandar hann sér í umræðuna. Það væri náttúrlega langbest.

En hefur hv. þingmaður einhver svör við því í hvernig stöðu starfsfólk og forstjóri Orkustofnunar verður eftir að búið er að innleiða þessar reglur? Þar sem Orkustofnun er falið ákveðið ábyrgðarhlutverk eftir orkutilskipun Evrópusambandsins, óháð ráðherra að hluta til, (Forseti hringir.) en sinni jafnframt störfum undir ráðherra, og hvort þeir þurfi þá að skipta deginum.