149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Takk fyrir þetta. Ég átti von á því að fá tertusneið hérna í púltinu, ég læt það nú vera. Það hefur verið sagt að unga fólkið okkar hafi kannski ekki mikinn áhuga á því máli sem við ræðum hér þrátt fyrir að það séu þau sem komi til með að bera þungann af því sem við ákveðum núna. En það eru til ánægjulegar undantekningar. Ung kona, Hildur Sif Thorarensen verkfræðingur, skrifaði stutta grein í Morgunblaðið í vikunni þar sem hún fer yfir þann feril sem hefur verið á þessu máli. Þriðji orkupakkinn hefur verið til umræðu síðan snemma í apríl og henni finnst að eitt hafi einkennt umræðuna, þ.e. hversu flókin hún er. Reglugerðirnar séu tyrfnar, umræðan gangi þvers og kruss. Það var sjálfsagt mest í byrjun. Hún segir, svo að ég vitni nú bara beint í þessa ungu konu, með leyfi forseta:

„Hvernig á venjulegt fólk að átta sig á þessu máli sem virðist vera mikið hagsmunamál fyrir þjóðina?“

Hún bendir á að það hafi komið fram í umræðunni að sú hætta gæti verið fyrir hendi að Landsvirkjun yrði skipt upp og/eða einkavædd og nefnir í því samhengi að Landsvirkjun sé gríðarlega mikilvæg fyrir ríkissjóð og hafi skilað 11 milljörðum í tekjur til þjóðarinnar 2017, í arð. Nú sjáum við fram á að Landsvirkjun fari að skila alvöruarði.

Hildur Sif segir líka, með leyfi forseta:

„Þegar við tökum einnig tillit til þess að á Íslandi búum við við eitt lægsta orkuverð í heiminum þá er eðlilegt að velta fyrir sér hvers vegna verið er að rugga orkubátnum. Við höfum tekjur af Landsvirkjun sem er að öllu leyti í þjóðareigu. Við greiðum lágt orkuverð. Hvaða ástæðu höfum við til þess að innleiða orkupakka sem ólíklegt er að verði til hagsbóta fyrir okkur Íslendinga?“

Áfram segir hún:

„Ríkisstjórnin hefur notað ýmis rök fyrir máli sínu. Má þeirra á meðal nefna rökin um að orkupakkinn skipti ekki máli, að EES-samningurinn fari í uppnám ef við höfnum þessu, að við séum orðin of sein. Eins og fram hefur komið í umræðunni, og þá sérstaklega frá ríkisstjórninni sjálfri, þá er Ísland ótengt orkumarkaði Evrópu. Það mætti því ætla að fyrst orkupakkinn skipti ekki máli fyrir okkur, þá ætti hann ekki að skipta máli fyrir Evrópusambandið heldur og því ætti að vera auðfengið að innleiða hann ekki.“

Síðan vitnar hún í Stefán Má Stefánsson, sem oft hefur verið vitnað til, sem segir, og hefur sagt áður, að hann hafi ekki áhyggjur af því að það að hafna orkupakkanum hafi í för með sér að EES-samstarfið fari í uppnám. En auðvitað, eins og hún bendir á, getur þetta haft erfiðar pólitískar afleiðingar fyrir okkur. Það er alveg rétt. En síðan segir hér, og þetta er kannski mergurinn málsins, með leyfi forseta:

„Samkomulag er gott orð. Það ætti öllum að vera ljóst að samkomulagi hefur ekki verið náð um orkupakkann. Þjóðin er óánægð. Það hafa átt sér stað mótmæli. Settur hefur verið á fót hópur sem vinnur að því að kynna orkupakkann og vara fólk við afleiðingunum af innleiðingu hans. Óeining er á Alþingi og standa mótherjar í ströngu við að halda aftur af þeim sem vilja keyra málið í gegn á ljóshraða og stimpla það og votta fyrir lok þingsins svo ríkisstjórnin geti farið brosandi inn í sumarfríið.“

Hún segir hér, með leyfi forseta:

„Ég hef fylgst vel með umræðunni og lesið mér töluvert til í þessu flókna máli og í raun finnst mér niðurstaðan vera einföld. Ef þetta skiptir ekki máli, ef við getum hafnað þessu og við búum við frábærar aðstæður í orkumálum, þá eigum við umhugsunarlaust að hafna orkupakkanum. Ekki myndi ég skrifa undir óhagstæðan samning fyrir sjálfa mig og vænti ég þess að Alþingi geri það ekki heldur fyrir hönd þjóðarinnar. Við höfum það gott í orkumálum, af hverju ættum við að óska þess að hafa það verra?“

Svo mörg voru þau orð. Hér var rödd úr hópi unga fólksins í landinu, fólksins sem kemur til með að súpa seyðið af því sem við erum að gera hér og nú.