149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Á sínum tíma þegar annar orkupakkinn var innleiddur á Íslandi orðaði einhver maður sem ég hitti og var hér á þeim tíma það sem svo að hann hefði runnið í gegn án þess að nokkur maður tæki eftir því. Þetta er kannski sá orkupakki þar sem við hefðum átt að negla niður löppinni og segja: Nei, þetta viljum við ekki. Af því að þarna kom í fyrsta skipti þessi alvöruskipting milli dreifingar og framleiðslu og segja má, af því að það var verið að stríða okkur Miðflokksmönnum á því að við hefðum innleitt eitthvað af þessu sjálfir, að það sé eitt atriði, kerfisáætlun fyrir hringtengingu um landið, sem er afleiðing af pakka nr. tvö.

Mér leiðist alltaf óskaplega þegar pólitíkusar segja að hitt og þetta mál sé svo flókið að fólki sé ekki treystandi til að taka ákvörðun sjálft eða eitthvað slíkt. Nú er verið að keyra þetta mál í gegn í blóra við 62% þjóðarinnar sem vilja ekki þetta mál.

Hverjum er það að kenna ef fólk hér fyrir utan húsið skilur ekki málið? Það er okkur að kenna sem erum hérna inni. Það er þeim að kenna sem ætla að keyra þetta mál áfram og hafa ekki kynnt það almennilega.

Þess vegna getum við aldrei í stjórnmálum sagt að einhver álitamál séu of flókin fyrir almenning. Það er dónaskapur. Við eigum að líta í eigin barm. Ef við getum ekki útskýrt fyrir almenningi málin sem við erum að renna í gegnum Alþingi, eins og sumir segja, sumum á ljóshraða, virkilega, um hvað þessi mál snúast og af hverju við eigum að gera þetta en ekki hitt, þá erum við ekki starfi okkar vaxin.

Þess vegna segi ég jú, og þess vegna var ég svo ánægður að sjá grein frá ungri, vel menntaðri konu og mér fannst rétt að vekja athygli á þeirri grein til mótvægis við allt sem væri sagt um að maður sé mosavaxinn eins og maður er sjálfur í sífellu sagður og fái ekki inn ferskan andblæ.