149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Forseti. Þetta var þrumuræðu hjá hv. þingmanni, alveg dagsönn. Það hefur komið fram að allir stjórnarflokkarnir hafa gengið á bak orða sinna sem þeir voru með í síðustu kosningum. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur voru hvor með sína samþykktina á bak við sig um að tengjast Evrópusambandinu ekki frekari böndum í orkumálum. VG var ekki með sérstaka samþykkt, eins og menn heyrðu kannski sem hlustuðu á ræðu mína hér í kvöld þar sem ég vitnaði í hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé, sem í viðtali viðraði vel skoðanir VG í þessu máli fyrir nota bene ári síðan.

Samfylkingarflokkarnir voru náttúrlega „fyr og flamme“ og vildu endilega, eins og ég hef sagt áður, herra forseti, ganga í kaldan faðm Evrópusambandsins og vera þar. Þar vilja þeir vera. En hinir flokkarnir þrír, þeir sem stjórna landinu, samrunaflokkarnir, VG og Sjálfstæðisflokkurinn, sem nú eru búnir að bindast tryggðarböndum og eru með eitt skilnaðarbarn með sér, hafa allir gengið á bak orða sinna í þessu máli. Allir.

Ég veit að þeir munu ekki gangast við því, en ég held að það sé næsta víst — og hv. þm. Vilhjálmur Árnason sem nú er kominn í salinn, og veri hann velkominn, getur örugglega staðfest að Sjálfstæðisflokkurinn gekk ekki til kosninga í fyrra, eða fyrir 18 mánuðum, undir því fororði að innleiða ætti orkupakka þrjú frá Evrópusambandinu og afhenda útlendingum, þess vegna í tímans rás, yfirráð yfir íslenskum orkumarkaði. Og það er næsta víst að Vinstri græn voru ekki að auglýsa (Forseti hringir.) að þau myndu stýra markaðsvæðingu orkuauðlinda Íslands að 18 mánuðum liðnum.