149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:02]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir hrós til handa hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé. Eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson sagði er hann búinn að vera hér þó nokkuð löngum stundum og svo lengi að við ættum eiginlega núna á þessari stundu að vera búin að sannfæra hann um að hann eigi að vera með okkur í liði og hafna þessum pakka.

Síðan er annað, af því að hingað í salinn er nýgenginn Vilhjálmur Árnason, ungur og upprennandi Sjálfstæðisþingmaður. Af því að nú er runninn upp þessi dagur er rétt að óska honum til hamingju með 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins. Ég get hins vegar ekki óskað Sjálfstæðismönnum til hamingju með þann pakka sem þeir fá frá þingflokknum sínum, orkupakka þrjú, í 90 ára afmælisgjöf. Hverjum hefði dottið það í hug að Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur, sem er búinn að berjast fyrir því alla sína sögu að landið sé sjálfstætt og starfandi og svo detta þeir um einhverja kratatillögu og gera hana að sinni?

Formaður Miðflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, er glöggur maður og hann sér stundum hlutina á undan öðrum. Ég var á fundi með honum og fleirum fyrr á árinu eða hvort það var í haust, og þá sagði hann, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn í dag er orðinn eins og Samfylkingin fyrir tíu árum.“

Þá var hann að tala um skoðanirnar. Svei mér þá ef það er ekki allt saman að koma fram. Ég átti heldur ekki von á því að lifa það að sjá samruna Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Ég átti ekki von á því að sjá Vinstri græn leiða markaðsvæðingu auðlinda Íslands. Ég átti heldur ekki von á því að sjá Sjálfstæðisflokkinn taka þátt í (Forseti hringir.) marxískri uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Svo lengi lærir sem lifir, herra forseti. (KÓP: Sama magn og gæði …?)