149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:04]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Ég hef boðað ræður um hin margvíslegustu málefni sem tengjast þessum þriðja orkupakka og það er svolítið leiðinlegt að þurfa alltaf að vera að fresta umræðu um þessi mál en það bara gerist svo margt í millitíðinni. Hér í kvöld og fyrr í dag höfum við heyrt nýjar upplýsingar, gögn hafa verið kynnt fyrir okkur sem höfðu ekki verið hluti af þessari umræðu áður, sem gera það að verkum að ég verð enn að fresta umræðu um nokkur þeirra mála sem ég hafði boðað umræðu um, sem öll tengjast þó þessum þriðja orkupakka.

Hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson er einn þeirra sem hafa kynnt ný umfangsmikil veigamikil atriði til sögunnar, m.a. magnaða útlistun hér áðan þar sem kom í ljós að verði þessi þriðji orkupakki samþykktur erum við að samþykkja þriðja orkupakkann í heild eins og hann leit út árið 2017. Hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson hélt því reyndar fram hér rétt áðan að enginn nennti að hlusta á þessar útlistanir hans sem væri með viti. Ég vona að þetta sé ekki rétt hjá honum, vegna þess að ég hef fylgst með af mikilli athygli og raunar verið heillaður af framgöngu hans hér og upp í hugann hefur komið mynd af Hollywood-kvikmynd með lögmann sem er að berjast við ofurefli valds, en með því að líta í gögnin, með því að grúska, með því að nota gáfurnar til að leiða út hina sönnu niðurstöðu, hefur sigur að lokum.

Í ljósi þess hvernig þessi umræða hefur þróast, og við betur áttað okkur á heildarmyndinni, þá ætla ég að tala aðeins út frá heildarmyndinni núna. Ég held að tímabært sé að við leyfum okkur að fara að tala um áhrifin af þriðja orkupakkanum eins og þau verða ef hann er innleiddur. Við getum hætt í bili að spá í fyrirvarana, sem er komið í ljós að eru ekki til, skipta engu máli, við getum einbeitt okkur að því að skoða áhrifin af orkupakkanum þegar hann er kominn til framkvæmda, ef og vonandi ekki, hann er komin til framkvæmda.

Ég hef fengið talsverða hvatningu frá fólki í mínu kjördæmi, ekki hvað síst fólki sem hefur verið lengi starfandi í verkalýðshreyfingunni og var löngu búið að átta sig á grundvallaratriðum þessa orkupakka og áhrifum hans, til að tala um áhrifin fyrir almenning, heildaráhrifin af innleiðingu pakkans. Ég ætla í þessari ræðu að reyna að gera því dálítil skil. Ég var reyndar búinn að fjalla um samanburð við norska skýrslu um áhrif orkupakkans þar í landi þar sem kom fram að innleiðingin myndi leiða af sér verulegt tjón fyrir byggðir landsins, ekki hvað síst og sérstaklega landsbyggðina í Noregi, tugþúsundir starfa myndu tapast og umtalsverðar tekjur sveitarfélaga og ríkis þar í landi. Og ég hef fært rök fyrir því að áhrifin á Íslandi yrðu hlutfallslega umtalsvert meiri.

En hvað þýðir þetta þá fyrir daglegt líf fólks á Íslandi ef þessi orkupakki nær í gegn? Það þýðir lakari kjör. Það þýðir að fólk mun missa vinnuna sem ella hefði haft störf. Það þýðir að störf sem ella hefðu orðið til munu ekki verða til. Það þýðir að sveitarfélög munu missa tekjur og ég held líka að ríkið muni missa tekjur. Það þýðir öfugþróun í byggðamálum, því að orkan hefur verið undirstöðuþáttur í því að viðhalda og efla byggð hringinn í kringum landið.

Með öðrum orðum, herra forseti, áhrifin verða neikvæð svo að um munar á öllum þeim sviðum sem við stjórnmálamenn ættum að láta okkur mestu varða.

Það er þess vegna ekki að ástæðulausu að við þingmenn Miðflokksins teljum tilefni til að ræða þetta mál áfram og bindum miklar vonir við að þingmenn stjórnarliðsins, og jafnvel fleiri þingmenn, muni vera reiðubúnir til að endurskoða málið, a.m.k. gefa því gaum aftur, jafnvel að (Forseti hringir.) hlýða á eitthvað af því sem við höfum haft fram að færa í þessari umræðu, því að þetta er ekki mál sem á að fara í gegnum Alþingi að næturlagi.