149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:12]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef svo sem aldrei haldið því fram að ég væri fullkomlega eðlilegur svoleiðis að ég skal fallast á þessa skilgreiningu hv. þingmanns.

En já, það þarf nefnilega að horfa á hlutina í samhengi. Það þarf að horfa á heildaráhrifin af innleiðingu þessa þriðja orkupakka, en einnig þarf að líta til þess hvað kemur í kjölfarið. Eins og hv. þingmaður kom reyndar aðeins inn á segir það sína sögu þegar stjórnvöld halda því fram að við verðum að innleiða þennan þriðja orkupakka vegna þess að fyrsta raforkutilskipunin hafi verið innleidd og önnur raforkutilskipunin og þetta leiði af því, og svo bæta menn því við jafnvel að ef við erum ekki dugleg að innleiða þá séum við að setja EES-samstarfið í uppnám. Svoleiðis að við getum rétt ímyndað okkur hvort sú röksemdafærsla verður ekki notuð gegn íslenskum stjórnvöldum ef þeim dytti í hug að ætla að standa á móti fjórða orkupakkanum eftir þessa innleiðingu.

Og talandi um fjórða orkupakkann. Það er nú eitt af þeim málum sem við höfum verið að grennslast fyrir um í þessari umræðu því að hann hefur í engu verið kynntur í samhengi við þriðja orkupakkann, sem er auðvitað stórfurðulegt því að Evrópusambandið stillir honum upp sem beinu framhaldi, eðlilegri afleiðingu af þeim þriðja. Hann gengur býsna langt, þessi fjórði orkupakkinn, eftir því sem við komumst næst, en óskiljanlegt að íslensk stjórnvöld skuli ætlast til þess að Alþingi samþykki þriðja orkupakkann á grundvelli þess fyrsta og annars en haldi frá þinginu fjórða orkupakkanum, sem samkvæmt þeirra eigin rökum er beint framhald.

Svo heyrum við af því að fyrir allnokkru síðan hafi farið fram kynningar á fjórða orkupakkanum fyrir einhverjum aðilum úti í bæ, fyrir samtökum og einstaklingum, (Forseti hringir.) en við hér á þinginu sem eigum að samþykkja þriðja orkupakkann og að næturlagi, ef hæstv. forseti fær vilja sínum framgengt, sem hann mun ekki ná, fáum ekki að vita hvað felst í fjórða orkupakkanum.