149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni ræðuna. Ég held að það sé rétt mat hjá hv. þingmanni að nú er kominn sá tími innan umræðunnar að við verðum að leggja áherslu á hver raunveruleg staðan verður að þriðja orkupakkanum innleiddum. Ég held að við ættum jafnvel að ganga skrefinu lengra og reyna að stilla upp sviðsmynd af þeirri stöðu sem verður hér uppi að aflokinni tengingu landsins með sæstreng, því að þá eru auðvitað allir fyrirvarar niður fallnir samkvæmt uppleggi utanríkisráðherra og Ísland heyrir að fullu undir hið yfirþjóðlega eftirlitsvald ACER-stofnunarinnar.

Ég gagnrýndi það hér í dag meðan hæstv. utanríkisráðherra var hjá okkur að þessum sviðsmyndum hefði ekki verið brugðið upp, því að skjótt skipast veður í lofti í pólitíkinni. Mér segir svo hugur að við gætum fundið okkur í þeirri stöðu að sæstrengur til flutnings rafmagns milli landa verði orðinn tengdur hér við land innan ekki mjög langs tíma.

Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að menn bregði upp mynd af því hver staða mála verður, hvaða hlutar orkumarkaðsmála og stýring orkumarkaðsmála verður þá undir eftirliti og beinum áhrifum þessarar yfirþjóðlegu stofnunar. Mig langar að heyra afstöðu hv. þingmanns til þess (Forseti hringir.) hvort það sé ekki nauðsynlegt úr því að stjórnvöld hafa ekki frumkvæði að því að stilla upp (Forseti hringir.) þessari sviðsmynd.