149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:29]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Í ljósi seinna svars hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hér rétt í þessu þá eiginlega neyðist ég til að breyta örlítið efnisatriðum ræðu minnar. Upp á samhengi hlutanna að gera þá langar mig að koma inn á það sem spannst í umræðu í andsvörum hér við ræðu þingmannsins á undan minni. Það vill svo skemmtilega til, þegar Icesave-málið er rifjað upp, að ég man ágætlega eftir sameiginlegu minnisblaði sem átti að ramma inn bærilega stöðu okkar í málinu, svokallað Memorandum of Understanding, og sömuleiðis man ég býsna vel eftir fyrirvörunum einhliða sem voru gerðir hér á Alþingi í tengslum við upphafsaðkomu Alþingis að málinu. Það er skemmst frá því að segja að með þá fyrirvara var ekkert gert og ef ég man rétt þá runnu þeir síðan bara út í sandinn á grundvelli sólarlagsákvæðis í frumvarpinu. Hv. þingmaður leiðréttir mig kannski ef þetta er misminni hjá mér, en ég held að það hafi legið þannig í því að Bretar virtu fyrirvarana með nákvæmlega sama hætti og mann grunar að Evrópusambandið muni virða hina heimatilbúnu fyrirvara af Rauðarárstígnum, þannig að ég held, hvað skal segja, að sporin séu fyrirsjáanleg í þessum efnum.

En aðeins að þessu Memorandum of Understanding, sem sagt minnisblaði um sameiginlegan skilning. Í tengslum við Icesave á sínum tíma átti þetta minnisblað að hluta til að tryggja stöðu okkar og undirstrika að þessir mótaðilar okkar eða gagnaðilar okkar í þessum viðræðum hefðu skilning á fordæmalausri stöðu Íslands. Hvað kemur síðan á daginn þegar á reynir? Það kemur á daginn að það virtist vera að minnisblaðið, þetta svokallaða Memorandum of Understanding, virtist fyrst og fremst notað sem barefli á íslenska fulltrúa þegar frá leið og hinn sameiginlegi skilningur var í meginatriðum fyrst og fremst sameiginlegur skilningur andstæðinga íslenskra hagsmuna í málinu, en íslenskur skilningur var þar víkjandi og þannig að á löngum köflum virtist enga mótspyrnu að fá í þeim efnum. Þannig að ég held að að mörgu leyti speglist sambærileg atriði í þessu orkupakkamáli.

Ekkert bendir til þess, þegar við skoðum það hvernig Evrópusambandið hefur hanterað fyrirvara Norðmanna í þessu máli, þar sem engin viðbrögð hafa borist í heila 14 mánuði, að viðbrögð við einhliða fyrirvörum frá Íslandi verði með öðrum hætti en viðbrögðin gagnvart fyrirvörum Norðmanna og viðbrögð Breta og Hollendinga voru gagnvart einhliða fyrirvörum Íslendinga í Icesave-málinu fyrir réttum tíu árum.

Ég held að við eigum ekki að nálgast þetta mál með barnslegri einlægni og treystandi á að þetta verði vonandi allt í lagi og að illu sé best af lokið og að við skulum bara innleiða þetta eins og þetta liggur fyrir, þá getum við snúið okkur að einhverjum mikilvægari málum eins og kynrænu sjálfræði og einhverju þess háttar sem bíður á áhugalista ríkisstjórnarinnar. Ég held að við höfum alveg nógan tíma til að kryfja þetta mál. Við fáum hér ótakmarkað, að því er virðist, aukafundi, næturfundi, í boði forseta, fundi fram á laugardaginn. Ég held að við skulum bara kryfja þetta, reynum að komast til botns í þessu þannig að við getum alla vega staðið klár gagnvart kjósendum okkar og sagt: Við reyndum að leiða það rétta í ljós í þessu efni þannig að menn flytu ekki sofandi að feigðarósi með einhverri barnslegri einlægni og trúgirni um að heimatilbúnir fyrirvarar hefðu eitthvert vægi og að öll heimsins minnisblöð trompuðu langtímahagsmuni orkustefnu Evrópusambandsins.