149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:34]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, það virðist vera orðið sjálfstætt markmið hjá hæstv. forseta að slá met í fundarhöldum, svoleiðis að einhver áhuginn virðist vera hjá forseta á þessari umræðu. Ég hef reyndar bent honum á að taktískt séð, ef hann hefur raunverulega áhuga á því að umræðan klárist, sé þetta kannski ekki skynsamlegasta leiðin.

Talandi um fyrri tíma og mál sem hafa komið upp á fyrri tíð hef ég nú búið við það að hafa vinstri menn í stjórnarandstöðu og vinstri menn eiga það til að tala svolítið mikið, það er svona þeirra háttur. En okkur datt ekki í hug að það myndi liðka fyrir málum að láta þá tala til 5, 6, 7, 8 eða 9 á morgnana. En hvað um það, forseti hefur þetta eins og honum hentar.

En að spurningu hv. þingmanns. Fyrst varðandi Icesave og fyrirvarana. Mig minnir reyndar að Bretar og Hollendingar hafi sagt, eins og vænta mátti, að þeir myndu að sjálfsögðu ekki fallast á það með einhverjum fyrirvörum og þar með eyðilagt málið og það þyrfti að koma aftur í þingið. En það leiðir hins vegar hugann að norsku fyrirvörunum við þriðja orkupakkann af því að þeir eru svolítið sama eðlis. Þar ákvað norska stjórnin að hún myndi láta þingið eða reyna að fá þingið til að samþykkja þriðja orkupakkann þar í landi með átta fyrirvörum. Það var skilyrði norska Verkamannaflokksins fyrir því að hleypa málinu í gegn. Það var gert. Málið afgreitt með þeim hætti. En í 14 mánuði hefur Evrópusambandið ekki svarað um hvort það taki þá fyrirvara gilda. Telur hv. þingmaður (Forseti hringir.) líklegt að Norðmenn fái jákvætt svar við sínum fyrirvörum frá Evrópusambandinu?