149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:36]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get svo sem svarað því eins heiðarlega og mér er unnt. Það hvarflar ekki að mér, að sögunni skoðaðri, að neitt verði gert með fyrirvara Norðmanna hjá Evrópusambandinu. Það er einhvern veginn þannig að þegar jafn formfast kerfi og stjórnkerfi Evrópusambandsins er, hefur ekki virt sjónarmið sem þessi viðlits í 14 mánuði, komið á annað ár, þá eru litlar líkur á að einhver breyting verði þar á. Og svona mál eru ekki látin liggja með þessum hætti fyrir mistök. Það er búið án nokkurs vafa sækja á um viðbrögð, reglulega og af festu, án þess að nein slík hafi borist. Ég tel því engar líkur á að staða hinna norsku fyrirvara batni frá því sem nú er í fyrirsjáanlegri framtíð.

Aðeins að fyrirvörum um Icesave. Þetta var auðvitað rétt munað hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að Bretar og Hollendingar, mótaðilarnir í málinu, sögðu það bara hreint út strax að ekkert yrði gert með þessa fyrirvara, en sólarlagsákvæðið var inni í lögunum þannig að þetta hefði — ég held að ég muni það rétt að hugsunin hafi verið sú að ef viðbrögð Breta og Hollendinga við Icesave-lögunum fyrstu yrðu sambærileg þeim sem Evrópusambandið sýnir norsku fyrirvörunum, þá væri þarna sólarlagsákvæði sem í rauninni felldi lögin í heild sinni eða í meginatriðum úr gildi.