149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:38]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Hárrétt hjá hv. þingmanni, tel ég, við náðum þessu í sameiningu. Svona getur nú verið gagnlegt, herra forseti, að hafa andsvör í ræðuhöldunum. Þannig kemst maður nær kjarna málsins og það hefur reynst okkur mjög gagnlegt við að grennslast fyrir um innihald þessa þriðja orkupakka.Við höfum í kvöld enn verið að átta okkur á nýjum hlutum og benda á þá en ekki enn sem komið er fengið viðbrögð frá stuðningsmönnum þessa pakka.

En til að klára þetta með norsku fyrirvarana langar mig að bera kenningu undir hv. þingmann: Getur verið að Evrópusambandið sé að bíða eftir því að Íslendingar klári að innleiða þriðja orkupakkann til að geta sent erindi á Norðmenn, telji þeir erindið yfir höfuð svaravert, og sagt: Nei, sjáið þið nú til. Nú eru öll ríkin búin að innleiða og eins og þið eigið að vita er ekkert til sem heitir einhliða fyrirvari við EES-tilskipanir? Því að ef Evrópusambandið hefði svarað Norðmönnum með þessum hætti áður en að Ísland innleiddi þriðja orkupakkann þá er viðbúið að Norðmenn hefðu áttað sig á því, sem einhverjir þeirra gera kannski, að helsta von þeirra sé einmitt sú að Íslendingar vísi málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Norðmenn munu þá líka eiga tækifæri á því að fá svör við því hvort eitthvað mark verði tekið á fyrirvörum þeirra, hvort þeir verði gerðir að raunverulegum undanþágum. En þegar öll ríkin verða búin að innleiða þá er þetta einfaldlega komið í lög allra þessara landa og ekkert fæst við ráðið.