149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þetta var alveg makalaus ræða hjá hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé. Ég veit auðvitað að þingmaðurinn brosir innra með sér núna vitandi að hún skoðast ekki öðruvísi en þannig. Það er fráleitt að halda því fram að þingmenn Miðflokksins stýri hér þingstörfum. Það vald er algjörlega í hendi forseta Alþingis með stuðningi forsætisnefndar og ábyrgðin á því að hér sé ekki öðrum málum hleypt á dagskrá verður bara að liggja þar sem hún á heima, hjá forseta Alþingis. Við skulum bara tala um hlutina eins og þeir eru. Ég vil bara að það sé sagt hérna, af því að gerð er athugasemd við það að við nefnum hina góðu starfsmenn Alþingis í þessu samhengi, að það var hæstv. forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, sem gerði það hér í morgun, að morgni föstudags svo að við höldum þessu öllu til haga því að þetta rennur saman þessa dagana. (Forseti hringir.) Ég vísa því til föðurhúsanna öllum meiningum um að starfsmenn Alþingis séu með ósæmilegum hætti dregnir inn í þessa umræðu núna.