149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:02]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Í lok ræðu sinnar kom hv. þingmaður með mjög áhugaverðan punkt sem vantað hefur í umræðuna fram að þessu. Það er sá munur sem er á því hvernig stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt á Íslandi eða í Noregi. Það leiðir hugann að því að þrátt fyrir innleiðingu norska þingsins á þriðja orkupakkanum, með þeim hætti sem þingið gerði, er nú beðið niðurstöðu norska stjórnlagadómstólsins um hvort innleiðingin gangi í berhögg við stjórnarskrá landsins. Þetta er býsna áhugavert fyrir margra hluta sakir og varðar okkur augljóslega, enda þurfa innleiðingar að vera framkvæmdar af öllum EFTA-ríkjunum sem aðild eiga að Evrópska efnahagssvæðinu, nokkurs konar „einn fyrir alla og allir fyrir einn“, nema að sjálfsögðu þegar tiltekið ríki fær undanþágu á sínum forsendum eftir eðlilegum leiðum í sameiginlegu EES-nefndinni.

Þetta vekur líka spurningar um í hvaða stöðu Ísland og íslensk stjórnvöld verða ef norski stjórnlagadómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu nú í haust að þriðji orkupakkinn standist ekki norsku stjórnarskrána en við verðum búin að innleiða orkupakkann hér. Fyrir það fyrsta er óskiljanlegt að íslensk stjórnvöld skuli ekki ætla að bíða eftir niðurstöðu norska stjórnlagadómstólsins. En í hvaða stöðu yrðum við ef niðurstaða þess dómstóls yrði á þá leið að orkupakkinn standist ekki stjórnarskrá Noregs?