149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:04]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hygg að niðurstaðan yrði sú að þar sem Noregur hefur raunverulega aflétt þessum stjórnskipulega fyrirvara, jafnvel þó að svo yrði dæmt í Noregi að það hefði brotið í bága við stjórnarskrá, yrði litið svo á að ef Ísland væri búið að aflétta líka myndu öll EFTA-ríkin tala einum rómi og væru búin að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara, þar sem Liechtenstein hefur gert það að fullu og án athugasemda. Og þar með væri orkupakkinn innleiddur eins og reglurnar kveða á um vegna þess að athugasemdir eða ágreiningsmál sem varða það eftir þann tímapunkt yrðu lögð undir EFTA-dómstólinn og hann dæmir eftir lögum Evrópusambandsins.

Ég sé því ekki annað en að eftir slíkar æfingar yrði innleiðingin einfaldlega úrskurðuð röng en viðkomandi ríki, sem hefðu gert það á rangan hátt, myndu sitja uppi með hallann af því vegna þess að þeim hefði mátt vera ljóst hvað þau voru að gera. Það er varla vandi Evrópusambandsins þó að Alþingi eða þjóðþing sjálfstæðra ríkja ákveði að brjóta í bága við eigin stjórnarskrá. Það er eitthvað sem Evrópusambandið getur trauðla borið ábyrgð á. Ef ég ætti að draga upp einfalda mynd af þessu, án þess að ég sé búinn að kynna mér það í þaula, finnst mér þetta blasa við miðað við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég vona að ég hafi náð að koma málinu frá mér á hæfilega skýran hátt.