149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:06]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var áhugaverður punktur. Forseti getur varla haldið því fram, eftir að hafa heyrt svona skýringu, að ekki sé gagn í andsvörum. En má ekki draga þá ályktun út frá þessari sannfærandi skýringu hv. þingmanns, að ákvörðun Íslendinga um innleiðingu þriðja orkupakkans varði gagnkvæma hagsmuni þessara landa, þ.e. sé hagsmunamál Íslendinga og Norðmanna? Ef við innleiðum þennan orkupakka, eins og hv. þingmaður lýsti, að óathuguðu máli hvað varðar stjórnarskráráhrif hér, það má bæta því við, er tækifæri Noregs til að innleiða í samræmi við stjórnarskrá sína í raun farið. Það hlyti því að vera fagnaðarefni fyrir Norðmenn, hvort sem það eru stjórnmálamenn, þingmenn á Stórþinginu eða aðrir, að Noregi gæfist tækifæri til að skera úr um hvort þessi innleiðing brjóti í bága við stjórnarskrá landsins, en þeir missa af því tækifæri ef íslensk stjórnvöld innleiða pakkann og löndin öll, Ísland, Noregur og Liechtenstein, verða endanlega föst í gildrunni, komin í klefann eða búrið sem ekið verður af stað með á vegferð Evrópusambandsins í orkumálum.