149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessa athyglisverðu umræðu sem farið hefur fram og tek undir það með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að það er a.m.k. ekki hægt að saka okkur þingmenn Miðflokksins um að vera að síendurtaka hlutina og að andsvör séu gagnslaus, því hér er búið að velta upp mjög áhugaverðu málefni sem þarf að ræða frekar. Hver niðurstaða stjórnlagadómstólsins í Noregi verður er mjög áhugavert mál og hvaða áhrif sú niðurstaða getur haft á samstarf ríkjanna og EES-samninginn og það sem fram undan er í þeim efnum. Ég fagna því og þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir að vekja máls á þessu.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem lýtur að því ef orkupakkinn, þ.e. að þessi þingsályktunartillaga sem við höfum rætt hér yrði send til sameiginlegu EES-nefndarinnar, það væri sáttaniðurstaða sem við myndum ná. Sem væri sú rétta og eðlilega leið í ljósi þess hvernig málið er vaxið. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra í dag að hann viðurkenndi óbeint að hann hafi rætt við embættismenn og ég spurði hann sérstaklega hvort hann hafi kannað viðbrögð þeirra á því ef við myndum fara þessa leið. (Forseti hringir.) Hann svaraði því ekki. Gefur það ekki svolítið til kynna að (Forseti hringir.) það hafi í raun og veru bara verið (Forseti hringir.) jákvætt. Og að fara með málið yfir til sameiginlegu EES-nefndarinnar? — Afsakið, herra forseti.