149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið, vel ígrundað, eins og honum er lagið. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög málefnalegan málflutning í þessu máli af hans hálfu svo eftir hefur verið tekið.

Mér þykir þetta svolítið áhugavert svar hjá hæstv. utanríkisráðherra í dag vegna þess að ljóst er, og ég er sannfærður um það, að þreifað hefur verið á þessu innan ráðuneytisins. Embættismenn hafa þreifað á því hvernig því yrði tekið ef við færum með málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina.

Ef niðurstaðan hefði verið sú að því væri tekið illa og embættismenn og þeir sem hafa með þessi mál að gera hefðu tjáð sig með þeim hætti þá held ég að hæstv. ráðherra hefði verið fljótur til og segja hér úr ræðustól að hann hafi kannað þessa hluti og því hafi verið tekið mjög illa. En hann kýs hins vegar að svara ekki spurningunni, sem gefur það til kynna að það sé, eigum við að segja leið stjórnmálamannsins til að komast hjá því að þurfa að segja að þetta sé alveg fær leið, sem hún er, og hafi ekki mætt neinni andstöðu eða fengið nein sérstök slæm viðbrögð hvað þetta varðar.

Mér finnst mjög áhugavert að greina þetta og þakka hv. þingmanni framlag hans í þeim efnum.