149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:26]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú var ég ekki í húsi þegar hæstv. utanríkisráðherra var hér í dag, en minn skilningur var sá að hann hefði komið hér til að upplýsa og útskýra og eiga samræður við þingmenn. Ég náði hins vegar, þó að ég hafi ekki verið hér í salnum, að fylgjast með umræðunni með öðru auganu og tek undir það, sem hv. þingmaður segir hér, að efnislega bárust engin svör við spurningum þingmanna heldur var farið aftur yfir áður tilbúið og framsett efni í Morfísstíl, eins og það er stundum kallað, þar sem leikurinn snýst oft um að vera meira áberandi en sá sem þú átt í samræðum við — hefur stundum verið nefnt mælskulist, sem á ekkert skylt við samræðulistina. Samræðulistin er list stjórnmálanna, að eiga samræður, að miðla málum, að rýna til gagns og komast að rökréttri niðurstöðu.

Herra forseti. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni að mér líður eins og það sé ekki ætlunin í þessu máli heldur akkúrat hið öndverða. Mér þykir það miður. Ég held að hér hafi verið lögð fram haldbær rök.