149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, það blasir við að það eru veik rök í málinu og verið er að velja leið sem er ekki besta leiðin þegar kemur að því að innleiða þessa tilskipun Evrópusambandsins. Þá reyna menn að fara hringinn í kringum hlutina. Þetta birtist okkur sérstaklega hér í dag þegar hæstv. ráðherra kom í þingsal. Ég er sammála hv. þingmanni um að hæstv. ráðherra eyddi drjúgum tíma í að fara í gegnum gögn sem eru haldbær og við þingmenn Miðflokksins búin að lesa. En við vorum hins vegar með aðrar spurningar sem skipta verulegu máli í þessu, eins og ég nefndi: Hvaða viðtökur fékk ráðherra þegar hann ræddi við embættismenn varðandi það hugsanlega að fara með málið fyrir EES-nefndina? Það er alveg greinilegt að hann viðurkenndi að hafa rætt við þessa aðila. Ég gat ekki skilið hann öðruvísi í svari sínu hér. En hins vegar gat hann ekkert sagt til um það hver viðbrögðin voru.

Þetta er lykillinn í þessu máli. Þegar menn eru að fara með svona mál fyrir þessa nefnd sem eru mikilvæg þá kanna menn jarðveginn. Það er þannig í öllum svona stórum málum. Menn kanna fyrst jarðveginn (Forseti hringir.) og við verðum að fá að vita hver viðbrögðin voru. Það er innlegg sem skiptir máli í þessu.