149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:39]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Í ljósi þess að hæstv. ráðherra svarar engu, a.m.k. mjög litlu, hefði maður helst bundið vonir við að hv. formaður utanríkismálanefndar gæti bætt þar úr. En nú skilst mér að eina framlag hennar til þessarar umræðu undanfarna daga hafi verið að mæta í gærkvöldi í þátt sem vinur hennar heldur úti á kostnað skattgreiðenda í Ríkisútvarpinu, þátt sem gengur fyrst og fremst út á að vinir hittast til að rægja annað fólk og útskýra hvers vegna vinahópurinn sé betri en allir aðrir.

Maður fer að velta fyrir sér þegar þetta tvennt kemur saman, þessir tveir hv. þingmenn, eða einn hv. þingmaður og einn hæstv. ráðherra, og báðir reyna eins og þeir geta forðast umræðuna, nema þegar þeir taka einhvern þátt í henni, í tilviki hæstv. utanríkisráðherra með því að vera dreginn hér í þingsal og hæstv. forseti þingsins taldi að við ættum fyrst og fremst að vera þakklát og glöð að hafa fengið að sjá ráðherrann. Annars vegar þá í tilviki hæstv. ráðherra, þegar hann er fenginn hingað í þingsal, við skulum orða það kurteislega, og svo í tilviki hv. formanns utanríkismálanefndar þegar hún er fengin í sjónvarpsþátt með vinum sínum. Í báðum tilvikum er ekkert verið að útskýra orkupakkann eða færa rök fyrir honum, það er bara skætingur, sérstaklega í garð Miðflokksmanna.

Hvað segir þetta hv. þingmanni um málefnalega stöðu þessara tveggja megintalsmanna þessa orkupakka? Ég dreg þá ályktun að þetta sé einstaklega skýr vísbending um að menn treysti sér ekki í rökræðuna og beiti þess vegna slíkum aðferðum. Þetta sé til marks um (Forseti hringir.) ómálefnalegt óöryggi. En er hv. þingmaður sammála mér um það?